Skilanefnd / bráðabirgðastjórn

Þann 21. mars sl. vék Fjármálaeftirlitið stjórn SPRON frá og skipaði skilanefnd yfir bankann. Um leið fól Fjármálaeftirlitið Nýja Kaupþing Banka hf. að annast innlánsskuldbindingar bankans skv. nánari lýsingu, sjá hér. Með lögum nr. 44/2009 um breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var skilanefnd breytt í bráðabirgðastjórn, sem hefur sömu hlutverkum að gegna og skilanefnd.

Slitastjórn

Í júní sl. rann skeið bráðabirgðastjórnar á enda, í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þann 23. júní sl. féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á beiðni bráðabirgðastjórnar SPRON um skipun slitastjórnar. Hlutverk slitastjórnar er að gæta hagsmuna kröfuhafa SPRON með því að gæta að eignum félagsins og hámarka verðmæti þeirra, og annast m.a. innköllun til kröfuhafa í samræmi við 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Sértæk skuldaaðlögun fyrir einstaklinga

Hvað er sértæk skuldaaðlögun?
Sértæk skuldaaðlögun er ætluð einstaklingum og felur í sér samning milli kröfuhafa og lántaka um leið til að laga skulda- og eignastöðu lántakans að greiðslugetu hans. Lántakinn greiðir af skuldum sínum eins og greiðslugeta hans leyfir á samningstímanum en kröfuhafar geta fallist á eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra eða gjaldfrest á þeim kröfum sem eru umfram greiðslugetu (sjá einnig svar við spurningunni: Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að skuldaaðlögun komi til greina?). Gert er ráð fyrir sölu eigna umfram það sem nauðsynlegt er til venjulegs heimilishalds en miðað við að í lok skuldaaðlögunartímabilsins haldi lántakinn hóflegu íbúðarhúsnæði og einum bíl með viðráðanlegri greiðslubyrði. Ef lántaki stendur ekki við greiðslur í samræmi við gerðan samning um skuldaaðlögun geta kröfuhafar ákveðið að skuldaaðlögun falli niður.


Fyrir hverja?
Sértæk skuldaaðlögun er ætluð einstaklingum í verulegum greiðsluvanda sem sýnt er að geti ekki staðið að fullu undir skuldbindingum sínum um fyrirsjáanlega framtíð.
Sértæk skuldaaðlögun kemur ekki til greina ef önnur og vægari úrræði duga til að leysa vandann.


Hvaða skuldir geta fallið undir skuldaaðlögun?
Skuldaaðlögun byggist á samkomulagi lánveitenda, þar á meðal fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs. Sé lántaki með skuldir hjá öðrum aðilum þarf hann að leita samkomulags við þá um mögulega skuldaaðlögun.


Hvert er markmiðið með sértækri skuldaaðlögun?
Markmið sértækrar skuldaaðlögunar er að einstaklingar í alvarlegum skuldavanda geti fengið skilvirka og varanlega lausn með samkomulagi við kröfuhafa þar sem skulda- og eignastaða er löguð að greiðslugetu. Gert er ráð fyrir sölu eigna umfram það sem nauðsynlegt er til venjulegs heimilishalds en miðað við að í lok skuldaaðlögunartímabilsins haldi lántakinn hóflegu íbúðarhúsnæði og einum bíl með viðráðanlegri greiðslubyrði.


Verða einhverjar skuldir afskrifaðar?
Skuldaaðlögun getur falið í sér eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra eða gjaldfrest á þeim kröfum sem eru umfram greiðslugetu. Standi lántakinn við gerðan samning um skuldaaðlögun verða kröfur sem eru umfram greiðslugetu lántaka, þó aldrei minna en 110% af verðmæti eigna, felldar niður við lok samningstímans. Hafi hluti veðkrafna verið settur á biðlán hefjast greiðslur þeirra að loknu skuldaaðlögunartímabili, eftir því sem greiðslugeta lántaka hrekkur til.


Hvaða skilyrði þarf  að uppfylla til að skuldaaðlögun komi til greina?
Lántaki og/eða maki hans þarf að jafnaði að hafa greiðslugetu til að greiða af lánum sem svara til a.m.k. 110% af markaðsvirði veðsettra eigna. Heimilt er í undantekningartilvikum að veita þeim sem uppfylla ekki skilyrði um greiðslugetu lána sem nema 110% af markaðsvirði veðsettra eigna, langtímalán sem nemur a.m.k. 80% af markaðsvirði veðsettra eigna. Sú fjárhæð langtímalánsins sem er mismunurinn af 110% og 80% af verðmæti fasteignarinnar er sett á biðlán til þriggja ára á síðari veðrétti. Hafi hluti veðkrafna verið settur á biðlán hefjast greiðslur þeirra að loknu skuldaaðlögunartímabili að þremur árum liðnum, eftir því sem greiðslugeta lántaka hrekkur til.
Með markaðsvirði íbúðarhúsnæðis er átt við áætlað söluverð sem þó er aldrei lægra en nemur fasteignamati eignar að viðbættu lóðamati. Með fasteignamati er átt við húsmat og lóðarmat.
Með markaðsvirði bifreiða er átt við verð samkvæmt útgefnum viðmiðum Bílgreinasambandsins eða mati löggilts bílasala.


Hvert á að leita eftir skuldaaðlögun?
Einstaklingur sem leitar eftir skuldaaðlögun skal snúa sér beint til aðalviðskiptabanka síns (banka eða sparisjóðs) sem leiðir skuldaaðlögunarferlið og telst því umsjónaraðili. Með aðalviðskiptabanka er átt við þann banka eða sparisjóð þar sem viðkomandi er með launareikning sinn.


Hvaða gögn þurfa að fylgja beiðni um skuldaaðlögun?
Eftirtalin gögn þurfa að fylgja beiðni um skuldaaðlögun:

 • Staðfest skattframtöl síðustu þriggja ára.
 • Launaseðlar síðustu 6 mánaða.
 • Upplýsingar um eignir og skuldir og mánaðarleg greiðslubyrði af þeim.
 • Þinglýsingarvottorð fasteigna og bifreiða.
 • Staðfesting lánveitanda á uppreiknaðri stöðu veðskulda.
 • Yfirlit yfir aðrar tryggingar (stöðu ábyrgðaaðila sé um það að ræða).
 • Upplýsingar um ábyrgðir sem viðkomandi er í vegna þriðja aðila.
 • Greinargerð um fjárhagslega stöðu skuldara (sjá svar við spurningunni: Hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í greinargerð lántaka um fjárhagslega stöðu?).
  Umsjónaraðili getur kallað eftir frekari gögnum.

Hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í greinargerð lántaka um fjárhagslega stöðu?
Auk tiltekinna gagna sem fylgja þarf beiðni um skuldaaðlögun þarf lántaki að leggja fram greinargerð um fjárhagslega stöðu sína. Í greinargerðinni þurfa að koma fram eftirtaldar upplýsingar:

 • Hverjar eru launatekjur lántaka og maka hans (ef um sambúðarfólk er að ræða).
 • Hvort lántaki muni hafa einhverjar aðrar tekjur en launatekjur til að greiða af skuldum.
 • Hvort gera megi ráð fyrir breytingum á tekjum og/eða ráðstöfunartekjum.
 • Sundurliðuð fjárhæð skulda sem þegar eru gjaldfallnar, svo og fjárhæð ógjaldfallinna skulda, sundurliðuð eftir kröfuhöfum.
 • Upplýsingar um meðaltal mánaðarlegra útgjalda lántakans og þeirra sem teljast til heimilis með honum síðastliðna 6 mánuði.
 • Annað sem máli getur skipt um greiðslugetu lántakans.
 • Áætluð afborgunarfjárhæð til greiðslu skulda og hvort þær séu mánaðarlegar eða ársfjórðungslegar.

Hvað er til ráða ef beiðni um skuldaaðlögun er hafnað?
Þá er rétt að kanna hvort umsækjandi uppfyllir skilyrði til tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna eða opinberrar greiðsluaðlögunar (sjá spurningar og svör um þessi úrræði).


Fylgir því einhver kostnaður að óska eftir skuldaaðlögun?
Nei, gert er ráð fyrir því að skuldaaðlögun sé umsækjanda að kostnaðarlausu að öðru leyti en því að umsjónaraðila er heimilt að taka gjald sem nemur útlögðum kostnaði vegna greiðslumiðlunar.
Ef ágreiningur verður um verðmat eigna skal umsjónaraðili láta gera nýtt verðmat á kostnað skuldara.


Hvert er hlutverk umsjónaraðila?
Umsjónaraðili gerir ítarlegt greiðslumat fyrir viðkomandi einstakling/fjölskyldu, þar sem fram koma upplýsingar um ráðstöfunartekjur og framfærslukostnað, eignir, tekjur og skuldir. Á grundvelli þessa leggur hann mat á greiðslugetu umsækjanda og gerir greiðsluáætlun og tillögur um sölu eigna.
Ef aðrir kröfuhafar samþykkja greiðsluáætlun tekur umsjónaraðili að sér greiðslumiðlun samkvæmt samningnum (sjá svar við spurningunni: Hvað felst í greiðslumiðlun umsjónaraðila?).


Hvað felst í greiðslumiðlun umsjónaraðila?
Umsjónaraðili sér um að taka fjárhæð, samkvæmt greiðsluáætlun út af launareikningi umsækjanda mánaðarlega og dreifa greiðslum til kröfuhafa eftir því sem samningur aðila segir til um.  


Á hverju byggist mat á greiðslugetu?
Greiðslugeta einstaklingsins/fjölskyldunnar er metin út frá ráðstöfunartekjum að frádregnum áætluðum framfærslukostnaði. Framfærslukostnaður er áætlaður sem næst tölum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna um neysluviðmið fyrir einstaklinga og fjölskyldur að viðbættum kostnaði vegna síma, áskrifta, fasteignagjalda, trygginga, bifreiðakostnaðar, dagheimilisgjalda og annarra útgjaldaliða sem eru fastir hjá hverri fjölskyldu.


Hvenær hefst skuldaaðlögun?
Skuldaaðlögun hefst þegar tekist hefur samkomulag milli lántaka og hlutaðeigandi kröfuhafa um skuldaaðlögun.


Hvernig er staðið að verðmati á eignum?
Umsjónaraðili verðmetur eignir. Við mat á fasteignum skal miðað við að vermæti þeirra verði aldrei lægra en fasteignamat eignar að viðbættu lóðarmati. Við mat á verðmæti bifreiða skal leggja til grundvallar söluverð samkvæmt útgefnum viðmiðum Bílgreinasambandsins eða mat löggilts bílasala. Verði ágreiningur um mat á söluverði eigna skal umsjónaraðili óska eftir nýju verðmati á kostnað skuldara.


Er gerð krafa um sölu eigna?
Í skuldaaðlögun felst að eignir og skuldir eru lagaðar að greiðslugetu. Í þessu felst að heimilt er að setja það sem skilyrði fyrir skuldaaðlögun að eignir verði seldar eða skipt fyrir minni og ódýrari eignir. Miðað skal við að þær eignir verði seldar sem ekki eru taldar nauðsynlegar til heimilishalds, svo sem sumarhús, ferðavagnar eða bílar, til að létta á skuldum og draga úr greiðslubyrði. Við lok samnings um skuldaaðlögun er miðað við að lántakinn haldi að hámarki hóflegu íbúðarhúsnæði og einum bíl og með viðráðanlegri greiðslubyrði.


Hvað ef eignir seljast ekki?
Gefa skal hæfilegan frest til sölu eigna. Einnig er heimilt að beita tímabundnum úrræðum, svo sem greiðslufrestun á meðan á sölutilraunum stendur. Einnig er mögulegt að skipta eignum fyrir minni og ódýrari eignir, eða að kröfuhafi leysi til sín eignir takist ekki að selja þær á markaði.


Hvað verður um lán sem eru í greiðslujöfnun, hafa verið fryst eða afborgunum af þeim verið frestað?
Ef lán eru í greiðslujöfnun getur það fyrirkomulag haldist óbreytt við skuldaaðlögun en skoða þarf hvert tilvik fyrir sig. Tímabundnar aðgerðir, svo sem frestun greiðslna eða afborgana (frysting) falla niður þegar skuldaaðlögun tekur gildi.


Hvað gerist ef greiðslugeta lántaka versnar á samningstíma um greiðsluaðlögun?
Ef lántakinn lendir á samningstíma í óvæntum og tímabundnum greiðsluerfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða öðrum ófyrirséðum atvikum, getur hann óskað eftir tímabundnum greiðsluerfðileikaúrræðum hjá viðkomandi lánastofnunum meðan á skuldaaðlögun stendur.


Hvenær lýkur skuldaaðlögun?
Ef lántaki stendur við greiðslur samkvæmt greriðsluáætlun í 3 ár frá undirritun samnings um sértæka skuldaaðlögun falla niður eftirstöðvar þeirra krafna sem greiðsluáætlunin náði ekki til. Hafi hluti veðkrafna verið settur á biðlán hefjast greiðslur þeirra að loknu skuldaaðlögunartímabili eftir því sem greiðslugeta lántaka hrekkur til. Veðskuldir umfram 110% af verðmæti eignarinnar sem standa jafnframt utan greiðslugetu lántaka í lok tímabilsins falla niður.


Hvað gerist ef lántakinn stendur ekki við gerðan samning um skuldaaðlögun?
Ef lántakinn stendur ekki við greiðslur í samræmi við gerðan samning um skuldaaðlögun geta kröfuhafar ákveðið að skuldaaðlögun falli niður. Sama máli gegnir ef upp kemur rökstuddur grunur um að lántaki hafi vísvitandi veitt umsjónaraðila eða öðrum kröfuhöfum rangar upplýsingar eða sleppt því að veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leggja rétt mat á eignir, skuldir og greiðslugetu hans

Ofangreindar upplýsingar eru af vefnum www.island.is
 

Creditors´ secure website